Gamalt sendibréf sem ég rakst á og þótti eiga erindi eins í dag og þá

 

Vegna lóðar nr. 70 á Laugarnestanga
Og jafnframt hugleiðing um framtíð Laugarnestangans.

Því er þetta ritað, að óskandi væri að Laugarnestanginn yrði skoðaður sem ein heild og þá með það m.a. í huga, að hér er síðasta griðland þeirra íslensku jurta sem garðyrkjufræðingar kalla illgresi, og eru þeirrar náttúru að vilja vaxa ótilneyddar á Íslandi; svo sem hvönn, kerfill, njóli, ránfang, baldursbrá, gýgjakollur, geldingahnappur og mjaðarjurt, svo aðeins fáar séu nefndar. Athugasemdir V. breytinga á deiliskipulagi Laugarnestanginn gæti orðið náttúrulegur griðastaður almennings í miðri höfuðborg. Til að skýra hvað átt er við með "síðasta griðland íslenskra jurta" vek ég athygli á bréfi frá fyrrverandi garðyrkjustjóra sem finna má á netinu á slóðinni:

http://www.simnet.is/hrafng/House/LettersfroInportantPeople.htm

Leikskólabekkir, félög eldriborgara, starfsmannafélög, vinnuhópar og ýmis félagasamtök koma gjarnan í heimsókn hingað á Laugarnestangann til að skoða og ærslast, og hef ég alltaf tekið vel við slíkum heimsóknum og ekki síst þegar um jafn föngulegan hóp og flugfreyjur er að ræða, sem komu hér í óvissuferð.

En nú sný ég mér beint að tillögunni sem beðið er um athugasemdir við:

Með því að byggja geymslu af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir austan Sigurjónssafns er stór hluti Laugarnestangans lagður undir geymslu. Geymslur eru þess eðlis að einu má gilda hvað er inni í þeim, þær halda áfram að vera geymslur og af teikningunni og lýsingunni sem fylgir þeim gögnum er mér voru send, verður ekki ráðið að þessi risavaxna geymsla skeri sig sérstaklega úr öðrum geymslum. Spurningin er því hvort með þessu sé verið að marka þá stefnu að Laugarnestanginn eigi að hýsa geymslur, en ekki lífrænni starfsemi og jafnvel stjaka henni burt. Væri ekki upplagt að láta Fornbílaklúbb Reykjavíkur fá til afnota gamla bílaverkstæðið sem nú á að rífa. Þannig mætti t.d. skapa aðstöðu fyrir foreldra að fara með unga ofurhuga til að skoða skrítna bíla og vinna út frá því aðra starfsemi sem börn hefðu gaman af að skoða, svo sem leifar frá bragga-kampinum sem var hér í stríðinu, en steypta braggagrunna er víða að finna hér austanmegin við hús mitt, og gæti þar risið stríðsminjagarður, en ég hef varðveitt skorstein úr einum foringjabragganna sem er hlaðin á þann hátt sem bretar hlóðu úr múrsteini, nema þessi skorsteinn er einstæður því í múrsteinaleysinu hafa Bretarnir notað fjörusteina, þessi skorsteinn er einstæð listasmíði sem staðist hefur tímanstönn mikið betur en þau steinhús sem alkalískemmdirnar naga.. Þá mætti endurreisa biskupsstofuna sem var fyrsta steinhús á Íslandi, en mynd af henni má finna í Íslandsleiðangri Gaimards árið 1836 (eftir Auguste Mayer) og koma þar fyrir leikskóla fyrir ungviðið. Þá væri fróðlegt og skemmtilegt að afmarka og koma upp heimildum um Laugarnesspítalann, setja upp söngstúdíó á gamla bæjarhólnum fyrir krakka í minningu Sigga Óla sem söng sjómannavalsinn svo dægilega, og svo framvegis, og gera Laugarnestangann um leið að gleðireit fyrir fjölskyldur, sem vita ekki hvað í ósköpunum þær eiga að gera fyrir blessuð börnin annað en vafra um víðáttubrjálað verslanahúsnæði.  

Víst er að geymsla af þessari gerð verður ekki til að auka líf á Laugarnestanganum, nema þá bætt verði ofan á hana einum til tveim hæðum fyrir fjölskylduvæna starfssemi sem tengdist náttúrufari tangans, en þar mætti einnig hafa öðruvísi veitingaaðstöðu sem gæfi fólki kost á að koma og grilla og matbúa á staðnum, og leikasali með dansaðstöðu. Útbúa skólagarða á Laugarnestúninu og gróðurhús í anda gömlu Þvottalauganna, skapa krökkum aðstöðu til að rækta og matreiða uppskeruna á haustin í veitingaaðstöðunni. Hér er að finna síðustu náttúrulegu vörina í Reykjavík, mætti ekki skapa þar aðstöðu fyrir skólaskip og róa með krakka á dorg og skak-fiskirí, og frelsa blessuð börnin frá að berja gras í atvinnubótavinnu í svo kölluðum skrúgörðum. Hér mætti fara í grasa- og náttúruskoðunarferðir, skoða fugla og fjöru, mýri og silungatjarnir.

Í ágúst í sumar sem leið átti ég ánægjulegan fund með fulltrúum Reykjavíkur borgar, þeim Hrólfi Jónssyni og Birgi Hlyn Sigurðssyni, hér á Laugarnestanganum. Gafst mér þá tækifæri til að sýna þeim félögum þær leikmyndir er hér er að finna úr víkingamyndum mínum í kringum húsið, og skýra einnig fyrir þeim hvernig húsið sjálft hefur þróast og hvaða tækifæri eru til að þróa það enn frekar. Tilefnið var bréf sem ég hafði sent Borgarráði Reykjavíkur 28 apríl 2006, en þar sagði m.a:

"Laugarnestangi 65 hefur lengi haft nokkra sérstöðu í borgarlandinu. Bæði er að húsið stendur nánast ofan í fjöru á friðlýstu svæði og að byggingarlag þess hefur orðið mörgum yrkisefni. Í gegnum tíðina hafa margir sýnt húsinu og umhverfi þess áhuga. Persónulegar aðstæður mínar eru nú þær að ég leyfi mér að lýsa yfir áhuga á viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíðarráðstöfun á eigninni Laugarnestanga 65."

Ég hef verið að hinkra eftir og átt vona á að tillögur komi frá þeim félögum vegna erindis míns, og um leið að þær varði framtíð Laugarnestangans í heild og væri óskandi að skoða þessa flatarmálsmiklu geymslu í því samhengi.
Ég ritaði formanni borgarráðs Alfreð Þorsteinssyni bréf á sínum tíma, 10.12. 03, eða fyrir um 4 árum, í framhaldi af fundi sem ég átti með honum um framtíð Laugarnestangans, og þeirrar starfsemi sem ég hefi hugleitt að þar mætti finna afdrep. Í því bréfi sagði m.a:

" Hvað húsið sjálft varðar (þ.e Laugarnestanga 65)  dettur mér í hug að rifja upp fáein orð úr fréttatilkynningu er EUROPEAN FILM ACADEMY (EFA) sendi frá sér, eftir að alþjóðlegur fundur á vegum Akademíunnar hafði verið haldinn í húsinu, en þar sagði:

"On the invitation of Icelandic filmmaker Hrafn Gunnlaugsson and the European Film Academy several members of the EFA and ten young European Filmmakers reassembled from 9th - 12th June at Gunnlaugsson`s house in Reykjavik. This house, which is an art-piece for itself, opened the minds of all guests, so that the meetings turned out to be inspiring, full of new  ideas and icebreaking."

Í hópnum á vegum Akademíunnar voru m.a nokkrir afburða listamenn á sviði leikmyndagerðar og arkitektar, svo mér þykir mikið koma til þessara orða um að húsið sé "art-piece for itself". Ég hef oft hugleitt síðan að opna húsið og umhverfi þess enn frekar fyrir almenningi og jafnvel að setja hér upp vídeótek; sem myndi sýna víkingamyndirnar mínar í hluta af sínu eigin umhverfi, því allt í kringum húsið eru hlutar úr leikmyndum myndanna. Og eins að sýna íslenskar myndir annarra listamanna. Um þetta vídótek mætti hugsanlega stofna óformlegan klúbb.

Kvikmyndasýningar sem þessar myndu væntanlega nýtast erlendum ferðamönnum sem koma mikið í heimsókn og leiðsögumenn eru sífellt að hringja og óska eftir að fá að koma með rútufarma af góðu ferðafólki og sýna staðinn. Ég hef tekið þessu vel og hef um leið fundið fyrir vaxandi vinsemd borgarbúa í garð þessa húss og umhverfislistaverkanna og jarðversskúlptúrana í kringum það. Og mér til ánægju sá ég nýlega að Fréttablaðið veitti mér Hrósið fyrir bústað minn "sem eitt af undrum Reykjavíkur" og læt ég ljósrit fylgja með.

Þá gerðu háskólanemar við nám í Menningartengdri ferðaþjónustu verkefni um húsið sem nefnist Náttúrugallerí Hrafns Gunnlaugssonar á Laugarnesinu, og læt ég 3 eintök fylgja með til fróðleiks.

Það má einnig finna á netinu:

http://www.simnet.is/hrafng/Textaskjol/LaugarnesNatturugalleri.doc

Verkefni háskólanemanna talar fyrir sig sjálft, en hefur orðið til að ýta enn frekar á að ég tæki erindi þetta upp við borgina.

Hér mætti fara mörgum orðum um alla þá möguleika sem húsið og svæðið umhverfis það býður upp á. Hér hvílir ein sérstæðasta kona íslenskrar fornsögu, fyrsti femínistinn Hallgerður langbrók, en Njála segir frá því að eftir víg Gunnars, hafi Hallgerður flutt hingað og mætti efna til samkeppni meðal höggmyndara um minnismerki um Hallgerði á langbrókinni í anda femínismans, í tilefni af Listahátíð. En ég læt staðar numið að sinni, en þætti vænt um ef þú sæir þér fært að kynna þetta erindi fyrir öðrum borgarfulltrúum til væntanlegrar afgreiðslu, ef áhugi er fyrir hendi." -  Svo mörg voru þau orð.

Í lokin geri ég þá athugasemd að óska eftir að framtíð Laugarnestangans verði skoðuð í heild áður en farið er í geymslusmíði af þessari gerð, og tel að bygging hennar brjóti í bág við fyrra deiliskipulag og þær hugmyndir um framtíð Laugarnestangans er okkur íbúum hafa verið kynntar, - um leið óska ég Sigurjónssafni alls hins besta, enda safnaði faðir minn heitinn, dr. Gunnlaugur Þórðarson, verkum Sigurjóns og var ágætur vinur hans. Safnið er góðra gjalda vert og þarf trúlega sína geymslu, en mætti ekki koma henni fyrir þar sem geymslur eiga heima?

 Vinsamlegast

 Hrafn Gunnlaugsson íbúi á Laugarnestanga 65.

Ps; sendi sem viðhengi verkefni háskólanema um Náttúrugallerí á Laugarnesinu - sem vitnað er til hér að ofan og óska vinsamlegast eftir að það verði látið fylgja þessu erindi ef það er prentað út.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hrafn Gunnlaugsson

Höfundur

Hrafn Gunnlaugsson
Hrafn Gunnlaugsson
Kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband