Stytting stúdentsaldurs

Til hvers að fækka hinum fáu áhyggjulitlu æskuárum? - verðum við ekki þrælar atvinnulífsins og bankanna nógu snemma samt? - fólk er ekki framleiðslueiningar - ég myndi þvert á móti vilja hækka stúdentsaldurinn um eitt ár og leyfa fólki að vera ungt lengur, draga úr atvinnuleysi - lífið er stöðugt að lengjast í vitlausan enda.

Ég hafði vit á því að falla í 3 bekk MR og lengdi menntaskóladvölina um eitt ár, - fékk mikið út úr Herranótt og félagslífinu og sumarvinnunni sem var bónus ofan á allt  - ári fyrr stúdent hefði ég ekki vitað neitt hvað ég í raun vildi. Til hvers að gera fólk ári fyrr ellilífeyrisþega? Þessi rembingur við að stytta hin glöðu stúdentsár er partur af útrásarkapítalismanum sem reiknar allt til peninga og hefur gleymt því sem heitir lífsnautnin frjóa. 


mbl.is Illugi: Skýrsluna ber að taka alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínar tillögur um NÝJA STJÓRNARSKRÁ

Á RAFRÆNU FYLGISKJALI TIL  KYNNINGAR  FRAMBJÓÐANDA TIL STJÓRNLAGAÞINGS

Var spurt:

Hvers vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings?

Svar mitt var eftirfarandi

  • Til að tryggja rétt hins almenna borgara gegn ofríki stjórnvalda.
  • Til að tryggja að opinberar stofnanir eins og Skattstofan, verði aldrei ríki
    í ríkinu.
  • Að auðlindir sem kunna að finnast á landgrunninu, t.d. olía í jörðu, verði
    eign allra landsmanna og aldrei gefnar fáum í "kvótakerfi".
  • Að þeir erlendir ríkisborgarar sem sækja um ríkisborgararétt á Íslandi
    verði upplýstir um mannréttindi stjórnarskrárinnar og að þeim verði skylt að
    vinna eiðstaf að stjórnarskránni til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt.
  • Til að tryggja rétt hins almenna borgara gegn ofríki stjórnvalda.
  • Ekki má limlesta eða örkumla fólk í nafni trúarbragða, eða þvinga það til að
    hylja andlit sitt á almannafæri. Trúartákn og trúarlegan klæðnað skal ekki
    leyfa í skólum.

Þar sem sá texti er skrifa mátti á fylgiskjalið var takmarkaður við hámark 700 slög að meðtöldum bilum, gat ég ekki komið eftirfarandi atriðum að sem ég tel mikilvæg:

  • Að löggjafarvald og framkvæmdavald verði aðskilið. Löggjafavaldið verði hjáAlþingi en framkvæmdavaldið hjá forseta sem sé þjókjörinn af meirihluta þjóðarinnar.
  • Forsetinn hafi álíka völd og forsetar Frakklands og Bandaríkjanna. Kjör hans takmarkist við tvö kjörtímabil.
  • Að öll ný lög skulu hafa "sunset down " ákvæði. þ.e.a; ný lög gildi aðeins til ákveðins árafjölda, og skuli þá endurskoðuð, en falla úr gildi að öðrum kosti.
  • Að 1. desember verði þjóðar-atkvæðagreiðslu-dagur, ár hvert, og á þeim degi skuli þjóðin kjósa um þau deilumál sem komið hafa upp á árinu og varða heildarhagsmuni almennings, og jafnframt um lög er varða grunnreglur réttarríkisins.
  • Þann dag skal jafnframt kjósa hæstaréttardómara, þegar sæti losnar í Hæstarétti, svo og yfirmenn helstu stofnana.
  • Að landsmenn séu allir í einum og sama lífeyrissjóðnum, og hann megi ekki fjárfesta sem vogunarsjóður.
  • Jafnframt geti einstaklingar, valið um, að greiða sinn eigin lífeyri inn á bundinn bankareikning sem komi fram á skattframtali.
  • Að skólaganga á skyldunámsstigi sé ókeypis, og mönnum tryggður jafn réttur til framhaldsnáms með námslánum.
  • Að í einangruðum tilfellum, fyrir vísvitandi glæpi gegn börnum, sem leiða til dauða eða andlegrar eða líkamlegrar örkumlunar megi beita ævilangri refsingu sem þýði að viðkomandi afbrotamaður verði ekki látinn laus á meðan hann lifir.
  • Að allir dómar fyrir níðingsverk gegn börnum verði hertir til hámarksrefsingar.
  • Stjórnarskráin í heild stuðli að því að breyta EFTIRLITSÞJÓÐFÉLAGINU í upplýsingaþjóðfélag.
  • Að stjórnarskráin sé felld inn í kennsluefni á skyldunámsstigi..

Að lokum:

Ýmsir hafa spurt mig um þetta ákvæði :

"Að þeir erlendir ríkisborgarar sem sækja um ríkisborgaratrétt á Íslandi verði upplýstir um mannréttindi stjórnarskrárinnar og að þeim verði skylt að vinna eiðstaf að stjórnarskránni til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt."

Hugsun þessarar greinar, er að gera útlendingum auðveldara að gerast íslenskir ríkisborgarar, þannig að þeir liggi ekki sífellt undir grun um að ætla sér að vanvirða siði sinna nýju heimkynna og fara á svig við réttarríkið.

Að lokum þetta; ég hef forðast almennt tal um frelsi, réttlæti, bræðralag ... en í þess stað lagt fram mótaðar hugmyndir um ákveðin mál. En að sjálfsögðu gæti ég skrifað miklu meira um ýmis atriði sem hér er ekki vikið að.

Til fróðleiks um afstöðu mína til bankahrunsins:

mbl.isBankarnir áttu að fara í þrot

 

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér fylgir blaðaviðtal við skáldkonuna Ayaan Hirsi Ali sem er vert að íhuga þegar við setjum okkur stjórnarskrá og til að ná áttum í margbrotnum heimi þegar við tölum um ólíka menningarheima:


Afstæðishyggja ógnar vestrænni menningu
Ayaan Hirsi Ali, sem ólst upp í strangtrúaðri austur-afrískri múslimafjölskyldu en
öðlaðist síðar frægð fyrir baráttu gegn kúgun múslimakvenna, segir skilningsleysi
gagnvart ógnum sem vestræn menning standi frammi fyrir ógna henni innan frá.
 „Stærsta ógnin viðvestræna menningu er vestræn menning sjálf." Þetta sagði Ayaan Hirsi Ali, sem er sómölsk að uppruna en varð heimskunn er hún var orðin þingmaður í Hollandi og helgaði sig baráttu gegn kúgun múslimakvenna, á hádegisspjallfundi á vegum alþjóð legu bókmennta hátíðar innar í Reykjavík
í gær.

Hún er gestur hátíðarinnar í tilefni af því að sjálfsævisaga hennar er nýútkomin á íslensku undir titlinum Frjáls. Með þessum orðum - að vestræn menning sé mesta ógnin
við sjálfa sig - átti Ali við að sú menningarlega afstæðishyggja, sem mjög hefði grafið um sig á Vesturlöndum, kynni ekki góðri lukku að stýra. „Sú trú, að öll menning sé
jafngild, er á villigötum," segir Ali. Hún segist trúa því að allir einstaklingar séu jafngildir, en ekki öll menning. Að sínu mati sé sú menning sem þróast hafi á Vestur löndum einfaldlega betri en sú siðmenning sem í boði sé annars staðar meðal mannkynsins. Hún sé ekki fullkomin frekar en aðrar afurðir mannanna, en hún
standi öðrum framar, meðal annars vegna þess að einn grundvallar þátta hennar sé að ala upp fullveðja, frjálsa einstaklinga, hvort sem þeir séu karlar eða konur.

„Það þýðir ekki að ég horfi framhjá voðaverkum sem unnin hafa verið í fortíð eða nútíð af Vesturlandabúum eða í nafni frelsis og lýðræðis, en þegar ég ber saman vestræna menningu við annars staðar, þá íslömsku, kínversku, rússnesku, þá er sú
vestræna þegar allt kemur til alls sú besta." „Menning sem leyfir að börn séu limlest er ekki jöfn menningu þar sem kvenleikinn og fæðing stúlkubarns er hyllt. Menning sem beitir nýjustu tækni til að kyngreina fóstur í því skyni að gera kleift að eyða fóstrum stúlkubarna er ekki jöfn menningu sem gefur stúlkum öll hugsanleg tækifæri; menning sem innrætir börnum sínum gildi „heilags stríðs" er ekki jöfn menningu sem leitast við að ala börn sín upp í nýsköpun, þekkingar leit og skilningi á heiminum," segir hún. Ali segir sofandahátt og skilnings leysi gagnvart þeim ógnum sem vestræn menning standi frammi fyrir hafa auðveldað hnignun hennar innan frá.

Ein þessara ógna sé tvímælalaust herská útlegging íslams. Hún sé öflug hnattræn hreyfing, sem hvorki beri að of- né vanmeta. Hættulegast sé að umbera það að slík kúgunarhugmyndafræði fái þrifist á Vesturlöndum í skjóli „fjölmenningar".
audunn@frettabladid.is

---------------------------------------------------------------------------------------------------
Hér er svo frétt úr Mogganum sem við vert að velta fyrir sér:


Norðlægustu mosku heims hafnað
Áætlanir um að byggja mosku í Tromsø í Noregi, sem yrði norðlægasta moska heims, eru nú á ís eftir að norska ríkisstjórnin neitaði að taka við styrkjum frá arabískum auðmanni. Vísa Norðmenn í þá staðreynt að trúfrelsi sé ábótavant í Sádi-Arabíu.

„Það væri þversagnakennt og óeðlilegt að samþykkja fjármögnun sem komin væri frá landi þar sem trúfrelsi er ekki til staðar," segir talsmaður utanríkisráðuneytisins, Ragnhild Imerslund.  Auðmaðurinn Hamad al-Gamas frá Sádi-Arabíu hafði heitið því að leggja 20 milljónir norskra króna til bygginar mosku í Tromsø. Setti hann fram það skilyrði að norsk yfirvöld gæfu skriflegt samþykki sitt við framkvæmdinni.

Að sögn NRK gjalda yfirvöld varhug við framkvæmdinni meðal annars vegna þess að í Sádi-Arabíu sé iðki menn trú sína samkvæmt íhaldssömustu reglum Íslam. Margir Norðmenn óttist að með því að heimila moskuna skuldbindi þeir sig til að heimila um leið innleiðingu íhaldssömustu útgáfu Íslam.

Fyrr á þessu ári höfnuðu Norðmenn byggingu mosku í Ósló af sömu ástæðu.

 

 

 

Með bestu kveðju,

Hrafn Gunnlaugsson
Kvikmyndaleikstjóri og frambjóðandi númer: 9937

Nánar:

http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/nr/9937


Bankarnir áttu að fara í gjaldþrot

Innlent | mbl.is | 6.10.2010 | 21:26

Bankarnir áttu að fara í þrot

Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri telur að við hrunið hefði átt að setja bankana í gjaldþrot og afhenda þá skiptaráðanda. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir „subbulegt kennitöluflakk" og þóknunargjarnar skilanefndir.

Hrafn, sem tók þátt í mótmælunum á Austurvelli í kvöld, saknar þess að í röðum listamanna sé ekki að finna kröftugan, ungan hugsjónamann sem stigið geti fram við þær aðstæður sem nú hafi skapast.

„Ástæðan fyrir því að ég er hér er sú er að mér sýnist framvindan vera slík að Alþingi - og þá á ég við alla Alþingismenn með ríkisstjórnina í forystu - telji það vera sitt helsta hlutverk að slá skjaldborg um bankana, bankakerfið og fjármagnseigendur en ekki heimilin í landinu. Í rauninni ræður Alþingi ekkert við bankana. Þeir fara sínu fram þótt það sé beint til þeirra hjáróma tilmælum.

Það sem hefði þurft að gerast í upphafi hrunsins var að fara með alla þessa banka í gjaldþrot, fá kröfurnar upp á borðið og byrja síðan upp á nýtt en ekki að fara í þennan kennitölufeluleik."

Hrafn telur að bankarnir hefðu átt að vera settir í gjaldþrot við hrun fjármálakerfisins. Spillingin sem viðgangist í bankakerfinu nú sé gríðarleg. mbl.is

Skiljanleg mótmæli

- Nú ertu búinn að fylgjast með þjóðfélaginu lengi. Hvað finnst þér um þessa atburði núna?

„Mér finnst þeir mjög skiljanlegir og ég hugsa að það verði aldrei hægt að ná Alþingi þannig samansettu að þjóðin verði sátt við það nema að það verði einstaklingskjör, að þjóðin geti kosið um einstaklinga. Við sjáum að menn eru að kjósa einhverja flokka en vita svo ekkert hverja þeir eru að kjósa inn á þingið.

Við svona ástand held ég að það sé langbest að reyna að ná til einstaklinga, gera þá ábyrga. Það þarf auðvitað breytingar á kosningalöggjöfinni. Ég held að það sé það skref í stjórnkerfinu sem sé það skásta. Og ég er ekki frá því að það sé ekki of seint að fara með bankana í gjaldþrot.

Menn spáðu lengi falli Sambandsins. Eitt kaupfélag var látið fara á hausinn og það varð allt vitlaust út af því. Svo fór allt Sambandið á hausinn en það var aldrei sett í gjaldþrot og þess vegna hefur spillingarhalinn frá sambandinu náð allt til dagsins í dag. Ég var akkúrat sannfærður þegar bankabólan var að það færi eins fyrir bankakerfinu og sambandinu, að það myndi hrynja."

Hrafn saknar þess að ekki séu kröftugir hugsjónamenn í röðum yngri listamanna. Halldór Laxness sést hér á sínum yngri árum. mbl.is

Kröfurnar kæmu upp á yfirborðið

- Af hverju er betra að bankarnir fari í gjaldþrot?

„Ég held að með gjaldþroti komi upp á borðið allar þær kröfur sem að eru til staðar. Með því að láta þá ekki fara á hausinn, heldur setja á þá nýjar kennitölur og skipa skilanefndir sem eiga síðan að leysa úr hinum svokallaða vanda, sé farið í þennan subbulega feluleik sem við erum að upplifa. Það er rótin að því að fólk upplifir mikla mismunun.

Þetta er kannski það sem okkur steðjar mest ógn af í þjóðfélaginu í dag. Það eru þessar svokallaðar skilanefndir og þetta svokallaða leyfi sem bankarnir hafa til að semja við ýmsa aðila. Mistökin voru, að mínu mati í upphafi þegar bankahrunið varð, að fara ekki í gjaldþrot með bankana. Því að við það að fara í gjaldþrot koma kröfurnar upp á yfirborðið. Það sem gerðist þegar Sambandið fór á hausinn var að það var aldrei lýst gjaldþrota. Þess vegna hafa endalaust verið að koma upp spillingarmál tengd því í gegnum tíðina."

En hvað með listamennina?

- Telurðu að listamenn muni taka virkari þátt í þjóðfélagsumræðunni fram undan heldur en að þeir gerðu á hinum svokallaða góðæristíma?

„Ég sé ekki í röðum ungra listamanna í augnablikinu neina sem að gætu tekið einhvern fána í þjóðfélagsbaráttu."

- Hvað skortir listamennina sem þú hefur í huga?

„Ég treysti mér ekki til að svara því. Auðvitað væri óskandi að úr röðum listamanna kæmi kröftugur hugsjónamaður. Það væri mjög óskandi."

- Ef við snúum okkur aftur að stjórnmálunum. Hvað með flokkakerfið sem slíkt? Viltu persónukjör innan flokka eða viltu afnema flokkakerfið?

„Ég held að það skipti ekki öllu máli hvort það er innan eða utan flokkakerfis vegna þess að ef það yrði persónukjör kæmi einfaldlega fram það mikið af einstaklingum sem myndu ekki hengja sig á klafa flokkanna."

Mun vara lengur en búsáhaldabyltingin

Hrafn kveðst aðspurður eiga von á langvinnri hrinu mótmæla.

„Ég býst við því að þessu sé víðs fjarri lokið."

- Þannig að mótmælin vari jafnvel lengur en búsáhaldabyltingin? 

„Ég hugsa að þetta geri orðið miklu meira langvarandi ástand. Það ristir miklu dýpra. Þegar búsáhaldabyltingin var í gangi var svo augljóst að reiðin beindist að ákveðnum aðilum í stjórnmálunum, ákveðnum flokkum. Nú held ég að reiðin beinist öðru fremur að stjórnkerfinu, bankakerfinu og öllu batteríinu.

Ég held að þessi mótmæli risti miklu dýpra og lýsi miklu meiri vonbrigðum og vonleysi. Ég held að fyrri mótmæli hafi einkennst af reiði en að mótmælin núna einkennist af heiftarlegum vonbrigðum. Þar held ég að munurinn liggi."

Miskunnarleysið kemur á óvart

- Hefur miskunnarleysið í þjóðfélaginu komið þér á óvart?

„Já. Það hefur komið mér á óvart að sjá hvað bankarnir og fjármagnsgeirinn hafa gengið fram af mikilli hörku gegn minnimáttar á meðan í skjóli skilanefnda er verið að gefa fólki jafnvel milljarða. Alþingi er algjörlega máttlaust gagnvart bönkunum.

Það er þessi gremja og þessi vonbrigði sem að maður finnst speglast í mótmælum og heyrir í fólki. Áður var það þessi pólitíska reiði. Nú ristir þetta mikið dýpra."

Önnur staða en á Sturlungaöld

- Þú hefur fjallað um Íslandssöguna í myndum þínum. Telurðu að þetta sé mesta ólga í íslensku þjóðfélagi frá Sturlungaöld?

„Staðan var öðruvísi á Sturlungaöld. Þá voru menn að berjast um yfirráð og völd í bókstaflegum skilningi því það var alveg klárt mál hvar goðorðin voru. Nú er þetta meira blindingsleikur. Þetta er Skugga-Baldur því að þessar svokallaðar skilanefndir og svokallað kennitöluflakk, sem er stundað núna og hefur verið stundað í kerfinu, verður til þess að þeir sem að minnst mega sín munu fara verst út úr þessu.

Ástandið er miklu verra í dag en þegar spillingin var verst í bankabólunni. Eins og gerist oftast í styrjöldum eru það saklaus börn og konur sem að falla," segir Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri.

mbl.isBankarnir áttu að fara í þrot

Bloggað um fréttina

 


Þætti vænt um ef þæu hefðir tíma til þess að kíkja á þetta brot úr viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur frá 23. maí í morgunblaðinu

„Ég held að Þorleifur Gunnarsson, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, sem beitti sér mest í þessu máli, hafi viljað skora pólitískar keilur. Hann hefur hugsað: „Í slúðri manna á milli er Hrafn tengdur við Sjálfstæðisflokkinn. Nú get ég komið Sjálfstæðisflokknum í vanda með því að segja að Hrafn njóti forréttinda.“ Honum virðist hafa tekist að vekja mikla hræðslu hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að aðgerðirnar hér á Laugarnesinu séu dæmigerð framkvæmd hræðslunnar. Þetta er ekki framkvæmd sem var yfirveguð og hugsuð heldur einkenndist hún af mikilli taugaveiklun og æðibunugangi. Auðvitað gat ég alltaf átt von á því að eitthvað yrði að víkja. En þá hafði ég vonast til að það gerðist í samráði við stjórn borgarinnar því ég hef alltaf átt frábært samstarf við embættismenn borgarinnar.
En nú voru það pólitíkusar sem fóru á taugum. Ég er með bréf frá framkvæmdasviði borgarinnar þar sem lýst var yfir vilja til þess að ná samkomulagi um málið og sagt að til stæði að leggja tillögur fyrir borgarstjóra. Ég reyndi mánuðum saman að ná tali af borgarstjóra en ég náði aldrei sambandi. Hún var ósnertanleg.
Það var gott að búa á Laugarnestanga þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri, hún virtist hafa húmor fyrir þessu brölti mínu. Á sínum tíma sýndi hún vissan áhuga á því að borgin fengi forkaupsrétt að húsinu og lóðinni, sem yrði þá eign borgarinnar eftir minn dag. Sjálfum þætti mér frábært ef hér yrði einhvern tíma í framtíðinni starfræktur leikskóli og svæðið helgað börnum.

Á liðnum árum hef ég rætt við marga borgarstjóra og þeir hafa allir sýnt þessum framkvæmdum mínum þolinmóðan skilning, en mér hefur einnig verið sagt af þeim og embættismönnum að nágrannakona mín á Listasafni Sigurjóns væri heiftarlega afbrýðisöm og yfir sig hneyksluð á þessu öllu saman og væri stöðugt að skrifa ráðum og nefndum kærubréf og gera athugasemdir við það sem ég er að gera. Ég hef alltaf tekið því eins og hverjum öðrum nágrannakryt sem hlyti að jafna sig og hefði helst kosið að vinna með henni að því að svæðið hér á milli okkar yrði opinn höggmyndagarður og leiksvæði fyrir börn. Þórðargleði er ekki til í mínum beinum.“


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hinn eilífi vandi .....

Vandinn við að vera ungur er sá að maður er ekki nógu gamall til að kunna að njóta þess.

Gamalt sendibréf sem ég rakst á og þótti eiga erindi eins í dag og þá

 

Vegna lóðar nr. 70 á Laugarnestanga
Og jafnframt hugleiðing um framtíð Laugarnestangans.

Því er þetta ritað, að óskandi væri að Laugarnestanginn yrði skoðaður sem ein heild og þá með það m.a. í huga, að hér er síðasta griðland þeirra íslensku jurta sem garðyrkjufræðingar kalla illgresi, og eru þeirrar náttúru að vilja vaxa ótilneyddar á Íslandi; svo sem hvönn, kerfill, njóli, ránfang, baldursbrá, gýgjakollur, geldingahnappur og mjaðarjurt, svo aðeins fáar séu nefndar. Athugasemdir V. breytinga á deiliskipulagi Laugarnestanginn gæti orðið náttúrulegur griðastaður almennings í miðri höfuðborg. Til að skýra hvað átt er við með "síðasta griðland íslenskra jurta" vek ég athygli á bréfi frá fyrrverandi garðyrkjustjóra sem finna má á netinu á slóðinni:

http://www.simnet.is/hrafng/House/LettersfroInportantPeople.htm

Leikskólabekkir, félög eldriborgara, starfsmannafélög, vinnuhópar og ýmis félagasamtök koma gjarnan í heimsókn hingað á Laugarnestangann til að skoða og ærslast, og hef ég alltaf tekið vel við slíkum heimsóknum og ekki síst þegar um jafn föngulegan hóp og flugfreyjur er að ræða, sem komu hér í óvissuferð.

En nú sný ég mér beint að tillögunni sem beðið er um athugasemdir við:

Með því að byggja geymslu af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir austan Sigurjónssafns er stór hluti Laugarnestangans lagður undir geymslu. Geymslur eru þess eðlis að einu má gilda hvað er inni í þeim, þær halda áfram að vera geymslur og af teikningunni og lýsingunni sem fylgir þeim gögnum er mér voru send, verður ekki ráðið að þessi risavaxna geymsla skeri sig sérstaklega úr öðrum geymslum. Spurningin er því hvort með þessu sé verið að marka þá stefnu að Laugarnestanginn eigi að hýsa geymslur, en ekki lífrænni starfsemi og jafnvel stjaka henni burt. Væri ekki upplagt að láta Fornbílaklúbb Reykjavíkur fá til afnota gamla bílaverkstæðið sem nú á að rífa. Þannig mætti t.d. skapa aðstöðu fyrir foreldra að fara með unga ofurhuga til að skoða skrítna bíla og vinna út frá því aðra starfsemi sem börn hefðu gaman af að skoða, svo sem leifar frá bragga-kampinum sem var hér í stríðinu, en steypta braggagrunna er víða að finna hér austanmegin við hús mitt, og gæti þar risið stríðsminjagarður, en ég hef varðveitt skorstein úr einum foringjabragganna sem er hlaðin á þann hátt sem bretar hlóðu úr múrsteini, nema þessi skorsteinn er einstæður því í múrsteinaleysinu hafa Bretarnir notað fjörusteina, þessi skorsteinn er einstæð listasmíði sem staðist hefur tímanstönn mikið betur en þau steinhús sem alkalískemmdirnar naga.. Þá mætti endurreisa biskupsstofuna sem var fyrsta steinhús á Íslandi, en mynd af henni má finna í Íslandsleiðangri Gaimards árið 1836 (eftir Auguste Mayer) og koma þar fyrir leikskóla fyrir ungviðið. Þá væri fróðlegt og skemmtilegt að afmarka og koma upp heimildum um Laugarnesspítalann, setja upp söngstúdíó á gamla bæjarhólnum fyrir krakka í minningu Sigga Óla sem söng sjómannavalsinn svo dægilega, og svo framvegis, og gera Laugarnestangann um leið að gleðireit fyrir fjölskyldur, sem vita ekki hvað í ósköpunum þær eiga að gera fyrir blessuð börnin annað en vafra um víðáttubrjálað verslanahúsnæði.  

Víst er að geymsla af þessari gerð verður ekki til að auka líf á Laugarnestanganum, nema þá bætt verði ofan á hana einum til tveim hæðum fyrir fjölskylduvæna starfssemi sem tengdist náttúrufari tangans, en þar mætti einnig hafa öðruvísi veitingaaðstöðu sem gæfi fólki kost á að koma og grilla og matbúa á staðnum, og leikasali með dansaðstöðu. Útbúa skólagarða á Laugarnestúninu og gróðurhús í anda gömlu Þvottalauganna, skapa krökkum aðstöðu til að rækta og matreiða uppskeruna á haustin í veitingaaðstöðunni. Hér er að finna síðustu náttúrulegu vörina í Reykjavík, mætti ekki skapa þar aðstöðu fyrir skólaskip og róa með krakka á dorg og skak-fiskirí, og frelsa blessuð börnin frá að berja gras í atvinnubótavinnu í svo kölluðum skrúgörðum. Hér mætti fara í grasa- og náttúruskoðunarferðir, skoða fugla og fjöru, mýri og silungatjarnir.

Í ágúst í sumar sem leið átti ég ánægjulegan fund með fulltrúum Reykjavíkur borgar, þeim Hrólfi Jónssyni og Birgi Hlyn Sigurðssyni, hér á Laugarnestanganum. Gafst mér þá tækifæri til að sýna þeim félögum þær leikmyndir er hér er að finna úr víkingamyndum mínum í kringum húsið, og skýra einnig fyrir þeim hvernig húsið sjálft hefur þróast og hvaða tækifæri eru til að þróa það enn frekar. Tilefnið var bréf sem ég hafði sent Borgarráði Reykjavíkur 28 apríl 2006, en þar sagði m.a:

"Laugarnestangi 65 hefur lengi haft nokkra sérstöðu í borgarlandinu. Bæði er að húsið stendur nánast ofan í fjöru á friðlýstu svæði og að byggingarlag þess hefur orðið mörgum yrkisefni. Í gegnum tíðina hafa margir sýnt húsinu og umhverfi þess áhuga. Persónulegar aðstæður mínar eru nú þær að ég leyfi mér að lýsa yfir áhuga á viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíðarráðstöfun á eigninni Laugarnestanga 65."

Ég hef verið að hinkra eftir og átt vona á að tillögur komi frá þeim félögum vegna erindis míns, og um leið að þær varði framtíð Laugarnestangans í heild og væri óskandi að skoða þessa flatarmálsmiklu geymslu í því samhengi.
Ég ritaði formanni borgarráðs Alfreð Þorsteinssyni bréf á sínum tíma, 10.12. 03, eða fyrir um 4 árum, í framhaldi af fundi sem ég átti með honum um framtíð Laugarnestangans, og þeirrar starfsemi sem ég hefi hugleitt að þar mætti finna afdrep. Í því bréfi sagði m.a:

" Hvað húsið sjálft varðar (þ.e Laugarnestanga 65)  dettur mér í hug að rifja upp fáein orð úr fréttatilkynningu er EUROPEAN FILM ACADEMY (EFA) sendi frá sér, eftir að alþjóðlegur fundur á vegum Akademíunnar hafði verið haldinn í húsinu, en þar sagði:

"On the invitation of Icelandic filmmaker Hrafn Gunnlaugsson and the European Film Academy several members of the EFA and ten young European Filmmakers reassembled from 9th - 12th June at Gunnlaugsson`s house in Reykjavik. This house, which is an art-piece for itself, opened the minds of all guests, so that the meetings turned out to be inspiring, full of new  ideas and icebreaking."

Í hópnum á vegum Akademíunnar voru m.a nokkrir afburða listamenn á sviði leikmyndagerðar og arkitektar, svo mér þykir mikið koma til þessara orða um að húsið sé "art-piece for itself". Ég hef oft hugleitt síðan að opna húsið og umhverfi þess enn frekar fyrir almenningi og jafnvel að setja hér upp vídeótek; sem myndi sýna víkingamyndirnar mínar í hluta af sínu eigin umhverfi, því allt í kringum húsið eru hlutar úr leikmyndum myndanna. Og eins að sýna íslenskar myndir annarra listamanna. Um þetta vídótek mætti hugsanlega stofna óformlegan klúbb.

Kvikmyndasýningar sem þessar myndu væntanlega nýtast erlendum ferðamönnum sem koma mikið í heimsókn og leiðsögumenn eru sífellt að hringja og óska eftir að fá að koma með rútufarma af góðu ferðafólki og sýna staðinn. Ég hef tekið þessu vel og hef um leið fundið fyrir vaxandi vinsemd borgarbúa í garð þessa húss og umhverfislistaverkanna og jarðversskúlptúrana í kringum það. Og mér til ánægju sá ég nýlega að Fréttablaðið veitti mér Hrósið fyrir bústað minn "sem eitt af undrum Reykjavíkur" og læt ég ljósrit fylgja með.

Þá gerðu háskólanemar við nám í Menningartengdri ferðaþjónustu verkefni um húsið sem nefnist Náttúrugallerí Hrafns Gunnlaugssonar á Laugarnesinu, og læt ég 3 eintök fylgja með til fróðleiks.

Það má einnig finna á netinu:

http://www.simnet.is/hrafng/Textaskjol/LaugarnesNatturugalleri.doc

Verkefni háskólanemanna talar fyrir sig sjálft, en hefur orðið til að ýta enn frekar á að ég tæki erindi þetta upp við borgina.

Hér mætti fara mörgum orðum um alla þá möguleika sem húsið og svæðið umhverfis það býður upp á. Hér hvílir ein sérstæðasta kona íslenskrar fornsögu, fyrsti femínistinn Hallgerður langbrók, en Njála segir frá því að eftir víg Gunnars, hafi Hallgerður flutt hingað og mætti efna til samkeppni meðal höggmyndara um minnismerki um Hallgerði á langbrókinni í anda femínismans, í tilefni af Listahátíð. En ég læt staðar numið að sinni, en þætti vænt um ef þú sæir þér fært að kynna þetta erindi fyrir öðrum borgarfulltrúum til væntanlegrar afgreiðslu, ef áhugi er fyrir hendi." -  Svo mörg voru þau orð.

Í lokin geri ég þá athugasemd að óska eftir að framtíð Laugarnestangans verði skoðuð í heild áður en farið er í geymslusmíði af þessari gerð, og tel að bygging hennar brjóti í bág við fyrra deiliskipulag og þær hugmyndir um framtíð Laugarnestangans er okkur íbúum hafa verið kynntar, - um leið óska ég Sigurjónssafni alls hins besta, enda safnaði faðir minn heitinn, dr. Gunnlaugur Þórðarson, verkum Sigurjóns og var ágætur vinur hans. Safnið er góðra gjalda vert og þarf trúlega sína geymslu, en mætti ekki koma henni fyrir þar sem geymslur eiga heima?

 Vinsamlegast

 Hrafn Gunnlaugsson íbúi á Laugarnestanga 65.

Ps; sendi sem viðhengi verkefni háskólanema um Náttúrugallerí á Laugarnesinu - sem vitnað er til hér að ofan og óska vinsamlegast eftir að það verði látið fylgja þessu erindi ef það er prentað út.

 

 

 

 


Imagine í spænskri þýðingu.

I was having fun by trying to translate Imagine by John Lennon into Spanish

IMAGÍNATE

Imagina que no existe el paraíso,
es fácil si lo intentas,
no hay infierno debajo de nosotros,
arriba, solo el cielo.
Imagina a todas las personas
Viviendo al día...
Imagina que no hay fronteras
no es difícil de hacer,
nadie por quien matar o morir,
ni tampoco religión,
imagina a toda la gente,
viviendo en paz...
Puedes decir que soy un soñador,
pero no soy el único,
espero que algún día te unas a nosotros
Y el mundo será como uno.

AÐFÖRIN AÐ ÆSKUÁRUNUM.

Ég man þá tíð að námsárangur á lestrarprófum var mældur með skeiðklukku. Því hraðar og því meira magni sem nemandinn gat bunað út úr sér af lesmáli, því hærri einkunnir. Gilti þá einu hvort nemandinn læsi þannig að áheyrilegt
væri eða skilja mætti hvað var lesið. Hraðinn skipti öllu máli. Ég hélt satt best að segja að tími skeiðklukkunnar í menntun þjóðarinnar væri liðinn. En nú virðist engu líkara en hefja eigi skeiðklukkuna til fyrri virðingar, ef marka má boðskap núverandi menntamálaráðherra um "að stytta stúdentsaldurinn".

Og til hvers að stytta hann? Svo fólk verði árinu fyrr ellilífeyrisþegar?
Eru ekki læknavísindin sífellt að lengja lífið í þann endann, við verðum
eldri, lifum lengur og meðalaldur þjóðarinnar fer stórlega hækkandi. Sá tími
sem fólk eyðir sem ellilífeyrisþegar hefur lengst og mun lengjast. Af hverju á þá að fækka æskuárunum og stytta stúdentsaldurinn? Væri ekki nær að lengja hann, og sjá til þess að menn væru almennt betur menntaðir þegar þeir hæfu sérnám í Háskóla?

Hafi ég lært eitthvað í æsku var það mest með þátttöku í félagslífi
skólans, af vinunum og í sumarvinnunni. Og þeir félagar mínir í skóla sem hvað mest hefur kveðið af síðar í lífinu, höfðu flestir vit á því að lengja eiginn stúdentsaldur um eitt eða jafnvel tvö ár; gáfu sér tíma í Herranótt, málfundarfélög, skólablaðaútgáfu, vísinda og listiðkun, en létu námsefnið í skólabókunum mæta hæfilegum afgangi. Það var kallað að falla, - og
reyndist mörgum mikil fararheill.

Í öllum stjórnmálaflokkum er til framagjarnt fólk sem eru svo afspyrnu
duglegt við að lesa skýrslur frá nefndum og ráðgjöfum að horfir til
vandræða. Helsti veikleiki þessara stjórnmálamanna er að þeir
telja sér til tekna að ganga í augu embættismanna og framkvæma sem mest af því sem embættismennirnir vilja. Slíkir stjórmálamenn eru því miður lítið meir en blaðafulltrúar sinna eigin ráðuneytisstarfsmanna, og því miður er engu líkara en þetta eigi sérstaklega við um núverandi menntamálaráðherra. Hægt væri að benda á mörg dæmi um hvernig slíkir stjórnmálamenn hafa unnið meiri og langvarandi skaða á íslensku þjóðfélagi en þeir sem hafa haft vit á því að vera passlega trúgjarnir og gleiðir þegar kemur að skýrslunum og hrífast hæfilega mikið af "já ráðherra".

Og hvaða fagnaðarerindi boða svo þessar skýrslur nefndarmanna? Jú, oftast er vitnað til einhvers í útlöndum. Dregnar fram tölur um að miðað
við hinar og þessar þjóðir sé ýmislegt skelfilega öðruvísi á Íslandi. En
megum við í rauninni ekki þakka fyrir það. Þó ekki væri nema það eitt að enn
er ekki til hér herþjónusta og íslenskt KGB.

Það hafa verið forréttindi að vera Íslendingur og vera laus við margt af því sem þykir sjálfsagt meðal stórþjóða. En nú er svo komið
að ofurhugar stjórnmálanna hamast við að eyða þessum forréttindum og það í
nafni frammfara og hagræðingar, - sem eru ein mest misnotuðu orð tungunnar af skýrslugerðarmönnum.

Ég ætla ekki að draga í efa að með því að lækka stúdentsaldurinn aukist
framleiðni á stúdentum? Og eins megi sanna með tölum að færri ár þýði
hagræðingu í skólakerfinu? En er það þetta sem við viljum? Halda menn að það fólk sem verður einu ári fyrr stúdentar muni eiga auðveldara með að höndla lífshamingjuna og setja sér framtíðarmarkmið? Og hvað rekur kvennfélag sjálfstæðiskvenna til að senda frá sér stuðningsyfirlýsingu við blaðafulltrúa skýrslugerðarmannanna og fagna “nýjum valkosti”? Hver taldi þessu félagi trú um að með tillögunum um lækkun stútentsaldurs væri verið að bjóða upp á nýjan valkost?
Staðreyndin er sú að sá valkostur "að fara ári á undan um einn bekk", hefur alltaf verið til staðar, lægi metnaðarfullum foreldum mikið á. Ég þekki nokkur dæmi þess af eigin raun. Og eitt er víst, sá æðibunugangur hefur fært því fólki litla viðbót við lífshamingjuna, nema síður sé.
Sá valkostur að stytta stúdentsaldurinn hefur alltaf verið
til staðar, - og líka verið hægt að lengja stúdentsaldurinn, og man ég ekki
betur en fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra hafi lengt sinn stúdentsaldur um tvö ár án þess að verða af lífshamingjunni.

Eitt er víst að uppspenntur námsárangur og kúrismi yfir skólabókum skilar
sér ekki í réttu hlutfalli hvað varðar árangur í lífinu, og stundum
þvert á móti. Ég minnist þess ekki að í lífshlaupinu hafi ég heyrt til
frekari afreka þeirra einstaklinga sem dúxuðu sem mest er ég var í skóla og
voru eftirlæti kennara.

Hvaðan er sú pólitíska sýn runnin að líta á nemendur sem
framleiðslueiningar sem verði að troða eins hratt og frekast er kostur í gegnum skóla og út á atvinnumarkaðinn?
Og hvernig má það gerast að vel uppalin
menntamálaráðherra verður smiðvél þessarar aðfarar að æskuárunum og hefur skeiðklukkuna aftur til virðingar. Er ekki kominn tími til að snúa við og fjölga æskuárunum með því að hækka stúdentsaldurinn og lengja þann
yndislega tíma? Gefa æskunni kost á breiðri menntun á sviði þjóðfélagsmála, lista og vísinda, þannig að íslenskir stúdentar hefji háskólanám vel undir það
búnir að velja sér ævistarf og hafi staðgóða þekkingu á þeim heimi sem þeir
lifa í.

Hvers vegna eru við í kapphlaupi við einhverja ímyndaða samkeppni við aðrar þjóðir? Samkeppni sem skýrslugerðarmenn hafa soðið fræðilega saman, og kallar á magn en ekki gæði, kallar á allt það sem velmegandi smáþjóð ætti alls ekki að taka sér til fyrirmyndar?

Hvar er að finna það pólitíska afl sem mun frelsa okkur af skýrslu?

Um bloggið

Hrafn Gunnlaugsson

Höfundur

Hrafn Gunnlaugsson
Hrafn Gunnlaugsson
Kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband