AÐFÖRIN AÐ ÆSKUÁRUNUM.

Ég man þá tíð að námsárangur á lestrarprófum var mældur með skeiðklukku. Því hraðar og því meira magni sem nemandinn gat bunað út úr sér af lesmáli, því hærri einkunnir. Gilti þá einu hvort nemandinn læsi þannig að áheyrilegt
væri eða skilja mætti hvað var lesið. Hraðinn skipti öllu máli. Ég hélt satt best að segja að tími skeiðklukkunnar í menntun þjóðarinnar væri liðinn. En nú virðist engu líkara en hefja eigi skeiðklukkuna til fyrri virðingar, ef marka má boðskap núverandi menntamálaráðherra um "að stytta stúdentsaldurinn".

Og til hvers að stytta hann? Svo fólk verði árinu fyrr ellilífeyrisþegar?
Eru ekki læknavísindin sífellt að lengja lífið í þann endann, við verðum
eldri, lifum lengur og meðalaldur þjóðarinnar fer stórlega hækkandi. Sá tími
sem fólk eyðir sem ellilífeyrisþegar hefur lengst og mun lengjast. Af hverju á þá að fækka æskuárunum og stytta stúdentsaldurinn? Væri ekki nær að lengja hann, og sjá til þess að menn væru almennt betur menntaðir þegar þeir hæfu sérnám í Háskóla?

Hafi ég lært eitthvað í æsku var það mest með þátttöku í félagslífi
skólans, af vinunum og í sumarvinnunni. Og þeir félagar mínir í skóla sem hvað mest hefur kveðið af síðar í lífinu, höfðu flestir vit á því að lengja eiginn stúdentsaldur um eitt eða jafnvel tvö ár; gáfu sér tíma í Herranótt, málfundarfélög, skólablaðaútgáfu, vísinda og listiðkun, en létu námsefnið í skólabókunum mæta hæfilegum afgangi. Það var kallað að falla, - og
reyndist mörgum mikil fararheill.

Í öllum stjórnmálaflokkum er til framagjarnt fólk sem eru svo afspyrnu
duglegt við að lesa skýrslur frá nefndum og ráðgjöfum að horfir til
vandræða. Helsti veikleiki þessara stjórnmálamanna er að þeir
telja sér til tekna að ganga í augu embættismanna og framkvæma sem mest af því sem embættismennirnir vilja. Slíkir stjórmálamenn eru því miður lítið meir en blaðafulltrúar sinna eigin ráðuneytisstarfsmanna, og því miður er engu líkara en þetta eigi sérstaklega við um núverandi menntamálaráðherra. Hægt væri að benda á mörg dæmi um hvernig slíkir stjórnmálamenn hafa unnið meiri og langvarandi skaða á íslensku þjóðfélagi en þeir sem hafa haft vit á því að vera passlega trúgjarnir og gleiðir þegar kemur að skýrslunum og hrífast hæfilega mikið af "já ráðherra".

Og hvaða fagnaðarerindi boða svo þessar skýrslur nefndarmanna? Jú, oftast er vitnað til einhvers í útlöndum. Dregnar fram tölur um að miðað
við hinar og þessar þjóðir sé ýmislegt skelfilega öðruvísi á Íslandi. En
megum við í rauninni ekki þakka fyrir það. Þó ekki væri nema það eitt að enn
er ekki til hér herþjónusta og íslenskt KGB.

Það hafa verið forréttindi að vera Íslendingur og vera laus við margt af því sem þykir sjálfsagt meðal stórþjóða. En nú er svo komið
að ofurhugar stjórnmálanna hamast við að eyða þessum forréttindum og það í
nafni frammfara og hagræðingar, - sem eru ein mest misnotuðu orð tungunnar af skýrslugerðarmönnum.

Ég ætla ekki að draga í efa að með því að lækka stúdentsaldurinn aukist
framleiðni á stúdentum? Og eins megi sanna með tölum að færri ár þýði
hagræðingu í skólakerfinu? En er það þetta sem við viljum? Halda menn að það fólk sem verður einu ári fyrr stúdentar muni eiga auðveldara með að höndla lífshamingjuna og setja sér framtíðarmarkmið? Og hvað rekur kvennfélag sjálfstæðiskvenna til að senda frá sér stuðningsyfirlýsingu við blaðafulltrúa skýrslugerðarmannanna og fagna “nýjum valkosti”? Hver taldi þessu félagi trú um að með tillögunum um lækkun stútentsaldurs væri verið að bjóða upp á nýjan valkost?
Staðreyndin er sú að sá valkostur "að fara ári á undan um einn bekk", hefur alltaf verið til staðar, lægi metnaðarfullum foreldum mikið á. Ég þekki nokkur dæmi þess af eigin raun. Og eitt er víst, sá æðibunugangur hefur fært því fólki litla viðbót við lífshamingjuna, nema síður sé.
Sá valkostur að stytta stúdentsaldurinn hefur alltaf verið
til staðar, - og líka verið hægt að lengja stúdentsaldurinn, og man ég ekki
betur en fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra hafi lengt sinn stúdentsaldur um tvö ár án þess að verða af lífshamingjunni.

Eitt er víst að uppspenntur námsárangur og kúrismi yfir skólabókum skilar
sér ekki í réttu hlutfalli hvað varðar árangur í lífinu, og stundum
þvert á móti. Ég minnist þess ekki að í lífshlaupinu hafi ég heyrt til
frekari afreka þeirra einstaklinga sem dúxuðu sem mest er ég var í skóla og
voru eftirlæti kennara.

Hvaðan er sú pólitíska sýn runnin að líta á nemendur sem
framleiðslueiningar sem verði að troða eins hratt og frekast er kostur í gegnum skóla og út á atvinnumarkaðinn?
Og hvernig má það gerast að vel uppalin
menntamálaráðherra verður smiðvél þessarar aðfarar að æskuárunum og hefur skeiðklukkuna aftur til virðingar. Er ekki kominn tími til að snúa við og fjölga æskuárunum með því að hækka stúdentsaldurinn og lengja þann
yndislega tíma? Gefa æskunni kost á breiðri menntun á sviði þjóðfélagsmála, lista og vísinda, þannig að íslenskir stúdentar hefji háskólanám vel undir það
búnir að velja sér ævistarf og hafi staðgóða þekkingu á þeim heimi sem þeir
lifa í.

Hvers vegna eru við í kapphlaupi við einhverja ímyndaða samkeppni við aðrar þjóðir? Samkeppni sem skýrslugerðarmenn hafa soðið fræðilega saman, og kallar á magn en ekki gæði, kallar á allt það sem velmegandi smáþjóð ætti alls ekki að taka sér til fyrirmyndar?

Hvar er að finna það pólitíska afl sem mun frelsa okkur af skýrslu?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Hrafn og velkominn í spjallheima !

Það er einmitt þetta, sem maður saknar; hvað mest frá síðari hluta nýliðinnar aldar. Íslendingar virtust komast ágætlega af; þrátt fyrir skýrsluleysið og, að fræðinga stóðið var ekki ofan í hvers manns koppi, hvað mest virðist bera uppi þjóðfélagsumræðuna; í dag. 

Núverandi menntamálaráðherra er einmitt kyndilberi þessarra garfara, sem vilja drífa æskuárin af, sem skjótast.

Skínandi góð grein, af þinni ágætu sýn; sem þú hefir, á samtíma okkar.  

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum (sérvitur unnandi kvikmynda þinna; að fornu og nýju)

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 21:36

2 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Takk fyrir greinina Hrafn, og ég er þér hjartanlega sammála.

Brynjar Hólm Bjarnason, 27.9.2007 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hrafn Gunnlaugsson

Höfundur

Hrafn Gunnlaugsson
Hrafn Gunnlaugsson
Kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband